Erninum sleppt

Erninum grútarblauta sem var bjargað á Snæfellsnesi var sleppt í gær. Virtist honum ekki hafa orðið meint af volkinu.

Eins og sagt var frá fyrir skemmstu var ársgamall grútarblautur örn handsamaður á Snæfellsnesi og hann fluttur í Húsdýragarðinn. Var örninn þveginn, losaður við grútinn og gefið að éta. Reyndist hann sólginn í niðurskorinn nautahjörtu.

Náttúrustofa Vesturlands segir frá því á vef sínum að erninum hafi verið sleppt í gær í Helgafellssveit. Var hann kraftmikill að sjá og tók flugið um leið og tækifæri gafst. Hann sveimaði í nokkurn tíma um svæðið áður en hann settist um stund 1-2 km frá sleppingarstað. Björgunin virðist því hafa borið góðan árangur.

Arnarvarp gekk ágætlega í vor samanborið við undanfarin ár. Samtals fundust hreiður 44 arnarpara en heildarfjöldi para í stofninum er um 65.

Á næstu dögum munu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fljúga yfir varpsvæði arna og kanna hverjir þeirra hafi komið upp ungum. Síðustu ár hafa oftast 23-25 pör komið 1-2 ungum á legg, þar af um þriðjungur 2 ungum.

Hér má sjá myndband á Youtube af sleppingu arnarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert