Íslenska vegabréfakerfið hefur verið uppfært til að fullnægja þeim kröfum um öryggi vegabréfa sem gerðar eru beggja vegna Atlantshafsins. Meginbreytingin felst í því að nú skal fingraförum bætt í örgjörva vegabréfanna.
Þessi breyting snertir eingöngu þá sem þurfa að endurnýja vegabréf sín hvort eð er. Eldri vegabréf halda gildi sínu fram að næstu endurnýjun.
Að sögn dómsmálaráðuneytisins eru nýju vegabréfin svo til eins í útliti og þau sem verið hafa í notkun frá árinu 2006. Segir ráðuneytið, að vegna breytinga á framleiðslukerfi vegabréfa megi búast við töfum í framleiðslu vikuna 29. júní - 3. júlí. Jafnframt verður engin skyndiútgáfa í boði þá viku. Þjóðskrá sér um vegabréfaútgáfu á Íslandi en sýslumenn sjá um að taka við umsóknum.