Grímseyingar munu leggja til lundann

Lundar í Grímsey
Lundar í Grímsey mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Nú virðist ljóst að lundaveiði verði lítil sem engin í Vestmannaeyjum í sumar. Því eru góð ráð dýr til að útvega lunda fyrir Þjóðhátíðina því Eyjamenn segja að hún muni ekki standa undir nafni nema hægt verði að bjóða upp á reyktan lunda.

Sama staða var uppi í fyrra og þá voru það Grímseyingar sem björguðu málunum. Nú liggur fyrir að þeir muni bjarga málunum á nýjan leik.

„Ég er búinn að tala við Grímseyingana og þeir munu bjarga okkur aftur. Þeir Grímseyingar sem mæta á Þjóðhátíðina verða heiðursgestir,“ segir Magnús Bragason í Vestmannaeyjum, sem hefur verkað og reykt lunda fyrir Þjóðhátíð undanfarin ár. Þegar blaðið sló á þráðinn til Þórs Vilhjálmssonar lundaveiðimanns í Grímsey í gær staðfesti hann að Grímseyingar ætluðu að bjarga málunum eins og í fyrra. Mikil og vaxandi lundabyggð er í Grímsey og hann hefur haft nægt æti, öfugt við lundann í Vestmannaeyjum.

Það er ekkert smáræðis magn sem Eyjamenn þurfa af lunda fyrir Þjóðhátíð. Um 14 þúsund gestir komu á Þjóðhátíð í fyrra og segir Magnús að gera þurfi ráð fyrir a.m.k. einum fugli á mann. „Þetta voru miklar reddingar hjá mér í fyrra,“ segir Magnús.

Hann reiknar með því að Grímseyingar verði að hlaupa undir bagga næstu árin enda reiknar hann með því að Eyjamenn fari varlega í lundaveiðarnar. Menn hafi verið vongóðir í fyrrsumar því lundinn virtist vera að bera síli í pysjurnar í júlí. „En um mánaðamótin júlí/ágúst var eins og slökknaði á þessu öllu, hvað sem hefur valdið því,“ segir Magnús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert