Ekki stendur til að leggja Íslensku óperuna niður. Stofnunin verður að sætta sig við niðurskurð líkt og aðrar stofnanir en ekki stendur til að gera á henni neinar breytingar er skipulag varðar. Verið að athuga hvort óperan fari í Tónlistarhúsið.
„Það stendur ekki til að leggja niður Íslensku óperuna og sameina hana Þjóðleikhúsinu,“ segir Sigtryggur Magnason, aðstoðarmaður menntamálaráðherra. Hann segir að engar tillögur um slíkt séu í niðurskurðartillögum menntamálaráðuneytisins til fjármálaráðuneytis.
Það standi heldur ekki til að sameina aðrar stofnanir eða leggja niður.
Hann segir að óperan verði að sætta sig við niðurskurð, rétt eins og aðrar stofnanir, en ekki sé ætlunin að gera á henni neinar breytingar er skipulag varðar. Þá sé verið að skoða flutning hennar í Tónlistarhúsið.
Frétt þess efnis að stjórnvöld hefðu í hyggju að leggja niður Íslensku óperuna og sameina hana Þjóðleikhúsinu birtist hjá vefritinu Pressunni í morgun.
Í gildi er fjögurra ára samningur milli Íslensku óperunnar og ríkisins sem gildir út þetta ár. Samkvæmt honum eru árleg fjárframlög til óperunnar 175 miljónir króna.