Öryrkjabandalag Íslands segir siðlaust að skerða bætur almannatrygginga með einungis nokkurra daga fyrirvara, en skerðingin á að taka gildi þann 1. júlí, samkvæmt frumvarpi um ráðastafanir í ríkisfjármálum. ÖBÍ mótmælir harðlega fyrirhuguðum skerðingum og segir þær umtalsverðar og hlutfallslega meiri en leggja eigi á meginþorra almennings í landinu.
Öryrkjabandalag Íslands sendi í gærkvöld frá sér umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. ÖBÍ leggst gegn þeim breytingum sem fyrirhugað er að gera á almannatryggingakerfinu og gagnrýnir að einungis séu gefnir þrír dagar til að skila inn athugasemdum við svo alvarlegar breytingar á almannatryggingakerfinu.
ÖBÍ mótmælir því að ráðist sé á almannatryggingakerfið með þeim hætti sem fram kemur í frumvarpinu og segir að breytingarnar muni skerða bætur til elli- og örorkulífeyrisþega. Þá muni breytingarnar í mörgum tilvikum leiða til þess að fólk missi ákveðin réttindi sem það hefur í dag.
ÖBÍ segir boðaðar skerðingar valda vonbrigðum, sérstaklega þegar haft sé í huga að ríkisstjórnin hefur lýst yfir því að hún muni verja kjör þeirra sem verst eru settir.
ÖBÍ bendir í umsögn sinni til Alþingis á það siðleysi sem felst í því að skerða bætur almannatrygginga með einungis nokkurra daga fyrirvara, sér í lagi þegar haft sé í huga að þeir sem treysta á greiðslur úr almannatryggingakerfinu er að jafnaði fólk með lágar tekjur.
Þá bendir ÖBí á að útgjöld örorkulífeyrisþega vegna lyfja-og lækniskostnaðar séu hærri en hjá meginþorra almennings og þessi kostnaður hafi hækkað á undanförnum mánuðum. Því sé mjög alvarlegt að leggja til enn frekari skerðingar hjá þessum hópi.
ÖBÍ hvetur alþingismenn til að standa vörð um velferð fólks og spyr hvar hugmyndafræðin um velferðarkerfi að hætti norðurlanda sé. ÖBÍ krefst þess að alþingi dragi til baka fyrirhugaðar skerðingar á almannatryggingakerfinu og leiti annarra leiða til að ná fram sparnaði í ríkisfjármálum.