Þröstur Jóhannsson, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Cosamajo, sem er meðal annars í ráðgjöf og fasteignaviðskiptum í Hong Kong, er athafnamaður sem búið hefur í Hong Kong í 13 ár. Hann hefur miklar efasemdir um að Sjóvá og Glitnir hafi gert rétt í því að rjúfa kaupsamninginn sem Sjóvá gerði við Shun Tek í október 2006, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Tap Sjóvár af samningsslitunum er yfir 3,2 milljarðar króna.
„Það bendir allt til þess að það hefði verið einfalt mál fyrir þá sem voru að semja fyrir hönd Sjóvár hér í Hong Kong að ná mun hagstæðari samningum en þeir gerðu, einfaldlega vegna þess að markaðsverð á sambærilegum fasteignum í Macau er um 4.500 HK dollarar fyrir hvert ferfet. Sjóvá samdi sig út úr samningnum á verði til Shun Tak sem mér sýnist vera um 3.300 HK dollarar fyrir ferfetið, þannig að þeir eru að semja langt undir markaðsverði. Þeir keyptu haustið 2006 á 4.400 HK dollara ferfetið, þannig að miðað við markaðsverð í dag, hefðu þeir átt að geta sloppið frá samningnum á sléttu, en ekki með yfir þriggja milljarða króna tapi,“ sagði Þröstur þegar Morgunblaðið náði tali af honum í Hong Kong í gær.
Meðalverð 4.500 HK dollarar