Nefndin hefur nú tekið formlegar skýrslur af alls 26 einstaklingum og þar á meðal eru ráðherrar, fyrrverandi og núverandi, fyrrverandi bankastjórar Seðlabanka Íslands og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, fyrrverandi bankastjórar, starfsmenn úr stjórnsýslunni og bönkunum og sjálfstæðir sérfræðingar sem unnið hafa á vegum þessara aðila.
Til viðbótar hefur nefndin og starfsmenn hennar átt fjölmarga fundi með starfsfólki í bönkunum og stjórnsýslunni til að afla upplýsinga og skýringa vegna athugana nefndarinnar. Fram kemur á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar, að þess sé að vænta að á næstunni verði fjölmargir aðilar kallaðir til þess að gefa formlegar skýrslur fyrir nefndinni og skýra nánar ýmis atriði sem komið hafa fram við rannsóknir nefndarinnar. Slíkar skýrslutökur krefjist undirbúnings þannig að þær skili tilætluðum árangri og nú er meðal annars unnið að honum.
Að undanförnu hefur rannsóknarnefndin lagt áherslu á að fá afhentar frá bönkunum þær upplýsingar og gögn sem nefndin telur sig þurfa til að vinna að athugunum og rannsóknum sínum. Þetta hefur nefndin gert m.a. til að tryggja að sumarleyfi starfsmanna í bönkunum hafi sem minnst áhrif á störf nefndarinnar. Þegar nefndin hóf störf beindust athuganir hennar sérstaklega að stóru bönkunum þremur en síðan hafa fleiri bankar og fjármálafyrirtæki fallið og verkefni nefndarinnar hefur því vaxið að þessu leyti.
Nú eru staddir hér á landi tveir erlendir sérfræðingar sem vinna á vegum nefndarinnar að athugun á ákveðnum þáttum í starfsemi bankanna, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Fyrri hluta síðustu viku var hluti nefndarmanna í Kaupmannahöfn og átti viðræður við ýmsa aðila um verkefni sem nefndin vinnur að og aðkomu erlendra sérfræðinga að þeim. Fundað var með starfsmönnum Ríkisendurskoðunar Dana um athugun sem sú stofnun hefur unnið að á starfsemi Fjármálaeftirlitsins í Danmörku þar sem sjónum var sérstaklega beint að því hvernig eftirlitið hefði staðið að málum í tilviki Roskilde Bank, sem féll í júlí 2008.
Samkvæmt lögum um starf rannsóknarnefndinnar skal stefnt að því að endanlegri skýrslu um rannsókn nefndarinnar verði skilað til Alþingis eigi síðar en 1. nóvember. Nefndin hóf störf í janúar sl. og sá tími sem nefndinni er ætlaður til verksins er því rúmlega hálfnaður. Á heimasíðu nefndarinnar segir, að starfið miði allt að því að að unnt verði að skila Alþingi skýrslunni á tilsettum tíma og þótt vinna við ákveðna þætti rannsóknarinnar muni standa allt fram undir það að skýrslunni verði skilað, sé þegar hafin vinna við að skrifa ákveðna þætti skýrslunnar.
Auk nefndarmannanna þriggja starfa 14 manns nú í fullu starfi við rannsókn nefndarinnar og undirbúning að skýrslu hennar. Til viðbótar koma síðan um 10 einstaklingar sem eru að vinna að ákveðnum verkefnum fyrir nefndina. Þar á meðal eru erlendir sérfræðingar. Alls eru þannig nær 30 að störfum á vegum rannsóknarnefndarinnar þessa dagana.