Misjafnt er hvernig stéttarfélögin innan ASÍ afgreiða samkomulagið um framlengingu kjarasamninganna. Efling ánægð með kjaramálasamkomulag.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar-stéttarfélags, segir að niðurstaðan hafi verið samþykkt einhuga í gær á fundi fulltrúa allra Flóafélaganna, þ.e. Eflingar, Hlífar og VSFK í Keflavík. Sigurður er ánægður með samkomulagið sem náðist í kjaramálum og stöðugleikasáttmálann sem undirritaður var í dag. Hann leggi mikilvægan grunn að framtíðinni.
„Nú er kominn tími til þess að hefjast handa og búa til þann viðsnúning sem við höfum verið að móta,“ segir hann.
Breytingar sem samið var um við framlengingu kjarasamninga fela í sér að ákvæði um endurskoðun og framlengingu núgildandi kjarasamninga frestast og skal vera lokið þann 27. október 2009.
Taxtabreytingar sem áttu að taka gildi frá 1. mars 2009 er frestað og koma til framkvæmda þannig að:
- 1. Helmingur hækkana almennra kauptaxta koma til framkvæmda 1. júlí sem hækka þá um 6.750 kr á mánuði. Helmingur hækkana á ákvæðisvinnutöxtum, kostnaðaliðum og fastákveðnum launabreytingum koma til framkvæmda á sama tíma. Hinn helmingur þessara hækkana kemur til framkvæmda 1. nóvember 2009.
- 2. 3.5% launaþróunartrygging kemur til framkvæmda 1. nóvember 2009 og viðmiðunartími vegna þessarar tryggingar miðast við tímabilið 1. janúar – 1. nóvember 2009.
- 3. Hækkun kauptaxta, almennar launahækkanir og aðrar kjarabreytingar sem áttu að taka gildi 1. janúar 2010 færast til 1. júní 2010.
„Þessi niðurstaða hefur þegar verið borin upp á formannafundi ASÍ sem samþykkti að vinna málið áfram en það verður afgreitt með tillögu sem verður borin upp í samninganefnd ASÍ og hjá SA til samþykktar eða synjunar. Tilkynna skuli niðurstöðu fyrir 13. júlí nk. Samningsaðilar geti sagt sig frá samkomulaginu en báðir aðilar hafa frest til 17. júlí 2009 til að ákveða að framlengja ekki samninginn. Í því tilviki fellur samningurinn úr gildi svo og áformaðar launahækkanir,“ segir í umfjöllun Eflingar um samkomulagið.