Einkaframkvæmd líkleg

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir hugsanlegt að auglýst verði forval vegna fjármögnunar og verktöku Vaðlaheiðarganga síðar í sumar. Ráðherra segir mikinn undirbúning hafa farið fram á vegum Greiðrar leiðar vegna ganganna sem nýtist við gerð útboðsgagna.

Fulltrúar verktakafyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins ræddu í dag við samgönguráðherra og vegamálastjóra um ástand og horfur í útboðum á sviði vegagerðar á næstunni. Samtök iðnaðarins hafa hvatt stjórnvöld til að endurskoða áform um frestun framkvæmda.

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins voru Árni Jóhannsson, Loftur Árnason og Sigþór Sigurðsson og lýstu þeir áhyggjum verktaka vegna fyrirhugaðs samdráttar í vegagerð. Sögðu þeir þau áform koma verktökum sérlega illa þar sem harla litlar framkvæmdir væru á vegum sveitarfélaga og byggingaiðnaðurinn við frostmark.

Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fóru yfir stöðuna á árinu og sögðu að þrátt fyrir frestun framkvæmda væri útlit fyrir að bjóða mætti út verk þegar liði á árið. Upphaflegt framlag til vegaframkvæmda var í ár 21 milljarður en yrði 17,5 milljarðar miðað við ákvörðun um samdrátt. Í upphafi árs var gert ráð fyrir að yfirstandandi verk myndu kosta um 15 milljarða sem myndi ef til vill hækka eitthvað vegna verðbóta.

Fram kom að mörg útboð ársins hafa verið hagkvæm og nefndi ráðherra að við 12 útboð síðustu mánaða hefði áætlaður verktakakostnaður verið um 5,2 milljarðar króna en samanlögð upphæð verksamninga verið 3,2 milljarðar.

Einkaframkvæmd líkleg
Samgönguráðherra nefndi að góðar horfur væru á að bjóða mætti út Vaðlaheiðargöng og samgöngumiðstöð í Reykjavík sem einkaframkvæmdir. Undirbúningur vegna hönnunar samgöngumiðstöðvar væri langt kominn á vegum Flugstoða ohf. og fyrir lægi að ganga frá lóðaskiptum ríkis og Reykjavíkurborgar. Þá sagði hann mikinn undirbúning hafa farið fram á vegum Greiðrar leiðar vegna Vaðlaheiðarganga sem nýtast myndi við gerð útboðsgagna og væri hugsanlegt að auglýsa forval vegna fjármögnunar og verktöku síðar í sumar.

Þá sögðu þeir samgönguráðherra og vegamálastjóri að á næstu vikum yrði farið yfir fjárhagsstöðu verka sem nú væru í vinnslu og að henni lokinni yrði ljóst hversu mikla fjármuni væri hægt að setja í frekari útboð sem þeir sögðu að stefnt væri að síðari hluta ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka