Harðar tekið á svikum

Aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi og bótasvikum verða stórhertar á næstunni. Í því skyni hafa Ríkisskattstjóri og Vinnumálastofnun sett á laggirnar sérstakt teymi, sem mun fara í vinnustaðaheimsóknir og kanna stöðuna. Er gert ráð fyrir að þetta teymi hefji störf eftir helgina. Þá verður fljótlega hleypt af stokkunum auglýsingaherferð gegn slíkum svikum.

Með stórauknu atvinnuleysi hafa bótasvik aukist og hafa nokkur mál verið upplýst, þar sem fólk á atvinnuleysisbótum hefur verið staðið að því að vera í fullri vinnu. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir algengt að þetta fólk hafi ekki gefið laun sín upp til skatts og þannig einnig verið að brjóta lög um skattskil.

Gissur segir að það hafi hamlað eftirlitsstarfi Vinnumálastofnunar, að hún hafi haft takmarkaðar heimildir til að fara inn í fyrirtæki til að afla upplýsinga. Ríkisskattstjóri hefur mun rýmri heimildir og því var brugðið á það ráð að sameina krafta þessara tveggja stofnana.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar er heimild til að krefja brotamenn um endurgreiðslur á bótunum með 15% álagi. Að sögn Gissurar er allur gangur á því hvort brotamennirnir eru borgunarmenn fyrir þeirri upphæð, sem þeir hafa svikið út í formi atvinnuleysisbóta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert