Karlmaður að nafni Rimvydas Stasiulionis, sem ákærður var fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða í sumarbústað í Grímsnesi í nóvember í fyrra var sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands og dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár.
Annar karlmaður og tvær konur voru ákærð fyrir brot gegn lífi og líkama með því að hafa látið fyrir farast að koma hinum látna undir læknishendur er hann hafði slasast lífshættulega vegna árásarinnar.
Konurnar voru báðar sýknaðar af ákæru en karlmaðurinn sakfelldur og dæmdur til að sæta sex mánaða fangelsi.
Tildrög málsins eru þau að morgni 8. nóvember 2008 hafi húsráðendur í sumarbústað í Oddsholti í Grímsnesi tilkynnt um að maður sem var gestkomandi hjá þeim væri látinn.
Áverkar voru á höfði hins látna og þóttu skýringar þeirra sem á staðnum voru á þeim ótrúverðugar. Þau voru öll handtekin og færð á lögreglustöð á Selfossi.
Rannsóknin málsins var að sögn lögreglu mjög viðamikil og fól m.a. í sér samanburð á sönnunargögnum sem aflað var á vettvangi og áverkum hins látna sem og framburði grunaðra.
Krufning leiddi í ljós að hinn látni lést af blæðingum í heila eftir að hafa hlotið þungt höfuðhögg. Vísbendingar eru um að sparkað hafi verið í höfuð hans og að hann hafi látist mjög skömmu eftir að það var gert.
Hinn látni hét Almis Keraminas og var fæddur árið 1970 í Litháen. Hann var búsettur í Reykjavík.