Öryrkjabandalag Íslands, (ÖBÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB) efna til mótmælastöðu á þingpöllum í dag þegar frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum verður tekið fyrir.
Fyrirhugað er að taka frumvarpið til afgreiðslu á Alþingi í dag en í því er kveðið á um alvarlegan niðurskurð í almannatryggingakerfinu sem á að skila ríkissjóði tæplega 4 milljörðum kr. á ári. ÖBÍ og LEB segja að hér sé um harkalegar aðgerðir að ræða þegar haft sé í huga að ríkisstjórn Íslands ætli að verja heimilin í landinu, lágtekjufólk og millitekjufólk. ÖBÍ og LEB spyrja sig hvort heimili öryrkja- og ellilífeyrisþega séu undanskilin öðrum heimilum í landinu.
ÖBÍ og LEB hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á þingpalla og fylgjast með umræðum um frumvarpið. Ráðgert er að umræður hefjist klukkan 14.
ÖBÍ og LEB segja að verði frumvarpið samþykkt sem lög á Alþingi í dag verði það mjög svartur dagur í réttindabaráttu örorku- og ellilífeyrisþega. Samtökin hvetja þingmenn til að slá út af borðinu skerðingar á almannatryggingum og leita annarra leiða til að ná inn þeim fjármunum sem eiga að sparast við þessa aðgerð.