Ný frumvörp um persónukjör samþykkt

Lagt til að framboðslisti verði tvískiptur. Á efri hluta verði nöfnin í stafrófsröð en efsti maður sé valinn með hlutkesti. Á neðri hlutanum veðri frambjóðendur sem boðnir eru fram með hefðbundnum hætti.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag, 26. júní, frumvörp dómsmálaráðherra um persónukjör í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Verða frumvörpin nú send stjórnarþingflokkunum til afgreiðslu eins og venja er. Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur haft umsjón með gerð frumvarpanna en jafnframt var settur á fót samráðshópur ráðuneyta, utanaðkomandi sérfræðinga, fulltrúa Sambands Íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi.  

Persónukjörskerfi það sem lagt er til, er að írskri fyrirmynd og byggir á óröðuðum framboðslistum þar sem kjósendur geta raðað frambjóðendum þess lista sem þeir merkja við, í þá röð sem þeir vilja á svipaðan hátt og tíðkast í prófkjörum. Með þessum breytingum er hvorki hróflað við listakosningu né hlutfallskosningakerfinu hér á landi. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og hefur persónukjörið einungis áhrif á það hvaða frambjóðendur hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi kjördæmi eða sveitarstjórn samkvæmt niðurstöðu kosninganna.

Þá er í frumvörpunum einnig lagðar til réttarbætur til handa þeim kjósendum sem ekki eru færir um árita kjörseðil, en lagt er til að þeim verði heimilt að hafa með sér, auk kjörstjóra, aðstoðarmann í kjörklefann að eigin vali. Með þessu nýmæli er komið til móts við þá sem sökum fötlunar ættu annars erfitt með að nýta sér rétt til þátttöku í persónukjörinu án aðstoðar.

Framkvæmd persónukjörs
Lagt er til að framboðslisti verði tvískiptur. Á efri hluta framboðslistans eru nöfn þeirra sem boðnir eru fram til persónukjörs raðað í starfrófsröð en varpa skal hlutkesti um hver skuli vera efstur. Skal fjöldi þeirra vera hinn sami og fjöldi þingsæta í kjördæminu. Neðri hluta  listans skipa frambjóðendur sem boðnir eru fram með hefðbundnum röðuðum hætti. Tala frambjóðenda getur því verið breytileg allt frá því að engir séu boðnir fram í hin röðuðu sæti til þess að þau séu fullmönnuð.

Uppgjör persónukjörsins fer þannig fram að fyrst er ákvarðaður svokallaður sætishlutur sem er lágmark atkvæða sem þarf til að ná einu af þingsætum listans í viðkomandi kjördæmi eða sætum í sveitarstjórn. Þá er fyrst aðgætt hvort einhverjir frambjóðendur hafa náð þessum sætishlut eða meiru að fyrsta vali kjósenda listans og er þeim þá strax úthlutað sætum á listanum. Þau atkvæði sem þessir frambjóðendur hafa hlotið umfram sætishlutinn eru færð með tilgreindum hætti til þeirra frambjóðenda sem nefndir eru sem annað val viðkomandi kjósenda. Er að því kemur að enginn frambjóðandi sem enn á eftir að úthluta sæti hefur náð fullum sætishlut er sá frambjóðandi sem fær fæst atkvæði að fyrsta vali, að teknu tilliti til fyrrgreindra „færðra“ atkvæða, færður í aftasta sæti óraðaða hluta framboðslistans. Atkvæði kjósenda hans eru þá færð til þeirra frambjóðenda sem þeir völdu að öðru vali og nú aðgætt á ný hvort einhver hafi við þetta náð upp í sætishluta o. s. frv.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert