Ráðherra skoðar inntökukerfið

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra við kennslu í Háskóla unga fólksins á …
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra við kennslu í Háskóla unga fólksins á dögunum. mbl.is/Jakob Fannar

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hyggst skoða inntökukerfið í framhaldsskólana sem sætt hefur gagnrýni. Samræmd lokapróf upp úr 10. bekk voru afnumin með nýjum grunnskólalögum sem tóku gildi í fyrrasumar og tóku framhaldsskólarnir mið af skólaeinkunnum nú í vor við inntöku nýrra nemenda.

Vantar skýrari sýn

„Þetta eru ný lög og það hafa margir úr skólasamfélaginu rætt um að það vanti skýrari sýn á hvað felist í skólaeinkunn,“ segir menntamálaráðherra.

Bent hefur verið á að misræmi sé milli skólaeinkunna þar sem grunnskólarnir hafi engan ramma frá menntamálaráðuneytinu um hvernig sú einkunn skuli fundin. Þar með sitji ekki allir nemendur við sama borð þegar þeir eru metnir inn í framhaldsskólana.

Í nýju grunnskólalögunum segir að nemendur í fyrri hluta 10. bekkjar skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf skuli haldin samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Ekki stóð til að menntamálaráðuneytið sendi framhaldsskólunum niðurstöður þessara samræmdu könnunarprófa sem reyndar voru ekki haldin í vetur.

„Það þarf að taka afstöðu til þess hvort framhaldsskólarnir eigi að fá upplýsingar um þá einkunn,“ segir Katrín.

Val og framboð skoðað

Hún segir einnig ástæðu til þess að endurskoða val um fjóra framhaldsskóla. Dæmi eru um að nemendur með háar einkunnir hafi ekki komist í neinn þeirra fjögurra skóla sem þeir settu á óskalista. „Við þurfum kannski líka að velta fyrir okkur hvort framboð á hefðbundnu bóknámi sé nóg vegna þessarar miklu ásóknar í slíka skóla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert