„Þetta er bara rugl“

mbl.is/ÞÖK

„Þetta er bara rugl,“ sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra þegar hann gekk úr ræðustóli Alþingis. Ögmundur svaraði þar gagnrýni á að ekki hefði verið tekin afstaða til óska einkaaðila um nýtingu skurðstofa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ögmundur sagði furðulegt að hlusta í sölum Alþingis á sjálfstæðismenn reka málefni einkabisness.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði um afstöðu Samfylkingarinnar til erindis Heilsufélags Reykjaness, Salt Investments og Nordhus Medical sem vilja leigja vannýttar skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ragnheiður Elín sagði brýnt að fá svör hið allra fyrsta en ráðherra hefur gefið út að svar liggi fyrir um miðjan ágúst. Ragnheiður Elín sagði ljóst að fyrirtækin leituðu annað ef dráttur yrði á svörum.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra sagðist ekki hafa lokað neinum dyrum en minnti á að endurskoðun heilbrigðisþjónustunnar stæði yfir. Heilbrigðisþjónustan yrði skipulögð út frá langtímahagsmunum og almannahagsmunir yrðu hafðir að leiðarljósi.

„Og það er furðulegt að heyra og hlusta hér á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins reka málefni einkabisness, eins og háttvirtur þingmaður hefur hér gert,“ sagði Ögmundur Jónasson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert