Þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave

mbl.is

Þingmenn Framsóknarflokks og Borgarahreyfingarinnar vilja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans vegna Icesave- reikninganna.

Þingsályktunartillaga 13 þingmanna flokkanna var lögð fram á Alþingi í dag. Þar segir að efna skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og auðið er um hvort staðfesta eigi ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Spurningin sem lögð yrði fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu hljóði svo; „Á Alþingi Íslendinga að staðfesta ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans vegna Icesave-reikninganna?“

Í greinargerð með tillögunni segir að ekki sé ljóst hverjar endanlegar skuldbindingar ríkissjóðs verða. Það fari eftir virði eignasafns Landsbanka, en ljóst sé að heildarfjárhæð sem greiða þarf innstæðueigendum sé yfir 700 milljörðum króna. Þar sem um svo veigamikla hagsmuni sé að ræða, þá standi rök til þess að þjóðin hafi síðasta orðið í málinu.

Þá segir að ljóst sé að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar yrðu ekki bindandi í sjálfu sér. Þó megi telja að Alþingi og ríkisstjórnin myndu í kjölfarið lúta niðurstöðu hennar, eins og títt er í nágrannalöndum okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru bindandi fyrir stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka