Stjórnarmenn Lífeyrissjóðs Kópavogs (LSK) voru upplýstir um samskipti við Fjármálaeftirlitið á stjórnarfundum og vissu að bókhaldið stæðist ekki skoðun.
Það kemur meðal annars fram í tölvupóstsamskiptum sem Sigrún Bragadóttir, framkvæmdastjóri LSK, átti við stjórnina þegar FME var send greinargerð 15. janúar. Þar skrifar hún: „Ég hitti Hjalta endurskoðanda hér niðri áðan og sagði honum frá þessu. Hann er hræddur um að þeir birtist og heimti að skoða bókhaldið á þessu ári og þá erum við í vanda.“
Það kemur fram í greinargerðinni til FME að landslag hvað varðar fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóða breyttist mjög eftir bankahrunið í byrjun október. „Stjórn sjóðsins taldi því eina örugga og ásættanlega fjárfestingakostinn vera þann að lána Kópavogsbæ fjármuni til skamms tíma í senn á meðan lausafjárþurrðin gengi yfir.“
Á þessum tíma var heildarskuld Kópavogsbæjar 580 milljónir króna en samkvæmt
ársskýrslu sjóðsins 2008 var hrein eign hans rúmir 2,4 milljarðar
króna. Samkvæmt lögum mega lán til sama aðila ekki fara yfir 10% af heildareignum sjóðsins.
Öll stjórn LSK hefur verið kærð til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.