Tvær rússneskar herflugvélar flugu um íslenskt loftrýmiseftirlitssvæði í 24-30.000 feta hæð hinn 16. júní síðastliðinn. Þetta var í fimmta skipti á þessu ári sem Rússar fljúga inn í lofthelgina. Þetta voru tvær sprengjuflugvélar, svokallaðir Birnir, af gerðinni Tu-95.
Rússarnir gerðu ekki vart við sig fremur en áður og voru flugvélarnar fylgdarlausar á meðan þær flugu um svæðið. Vélarnar geta borið kjarnorkuvopn en staðfestar upplýsingar liggja ekki fyrir um búnað þeirra í þessari för, að því er segir á vef Varnarmálastofnunar.
Starfsmenn Varnarmálastofnunar í vaktstöð loftvarnakerfisins á Keflavíkurflugvelli fylgdust með flugi vélanna og liðu um áttatíu mínútur frá því að þær komu inn á svæðið í norðri þar til þær flugu inn á svæði sem vaktað er af ratsjárstöðvum NATO í Noregi og Bretlandi. Allt frá því vélarnar birtust var eftirlitinu stjórnað frá stjórnstöð NATO í Finderup í Danmörku.
Í samræmi við verklagsreglur var Flugstoðum og Flugmálastjórn gert viðvart um ferðir Bjarnanna, s.s. til að tryggja öryggi borgaralegs flugs á meðan á flugi þeirra stóð. Auk þess var Landhelgisgæsla Íslands látin vita.
Frá því að bandaríska varnarliðið fór af landi brott hafa 54 rússneskar sprengjuvélar flogið um loftrýmiseftirlitssvæðið í 23 ferðum.