Vilja forða slysi við lagasetningu

Leggja á afdráttarskatt af vaxtagreiðslum til erlendra aðila.
Leggja á afdráttarskatt af vaxtagreiðslum til erlendra aðila. mbl.is

Verði afdráttarskattur af vaxtagreiðslum til erlendra aðila leiddur í lög óbreyttur, samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra, gæti það haft geigvænleg áhrif á íslenskt efnahagslíf, að mati endurskoðunarskrifstofanna Deloitte, KPMG og PricewaterhouseCoopers.

Þær sammæltust um að leggja fyrir efnahags- og skattanefnd athugasemdir til að forða „slysi við lagasetningu“.

Sama tillaga, þ.e. um afdráttarskatt af vaxtagreiðslum til erlendra aðila, var lögð fram á síðasta þingi en mikla vinnu hagsmunaaðila og sérfræðinga var niðurstaða nefndarinnar að fella á brott ákvæðið. Nú er sama ákvæðið komið inn að nýju, óbreytt.

Í frumvarpinu er því haldið fram að með innheimtu vaxta á greiðslur til erlendra aðila sé einungis verði að skipta skattlagningarréttinum á milli ríkja og tryggja það að eitthvað renni í ríkissjóð í stað annarra ríkja. Þá er því haldið fram að vegna tvísköttunarsamninga eða reglna í skattlöggjöf erlendra ríkja, sem kveða á um endurgreiðslu, eða frádráttarrétt, í heimaríki, ætti skattbyrði hins erlenda móttakanda vaxtatekna ekki að þyngjast. Þannig ætti ákvæðið ekki að hafa áhrif á það vaxtastig sem innlendir aðilar bera.

Endurskoðunarskrifstofurnar segja það vekja furðu að fjármálaráðuneytið, sem fer með tvísköttunarsamningsmál á Íslandi átti sig ekki á grundvallaratriðum um afléttingu tvísköttunar og telja þá spurningu vakna hvort tilgangurinn sé annar en látið er uppi.

Telja stofurnar að breytingin myndi hafa í för með sér, að ef íslenskt fyrirtæki tæki lán hjá banka erlendis, þar sem sömu skattareglur gilda og hér á landi, myndi bankinn tapa á því að lána fyrirtækinu, og skattlagningin yrði þrefalt hærri en tekjurnar.
Það myndi leiða til þess að hætt yrði að lána til Íslands eða vextir yrðu hækkaðir á íslensk félög til að mynda meiri hagnað sem nemur auknum skatti.

Einnig benda endurskoðunarskrifstofurnar á að ef erlendir aðilar sem heimilisfastir eru á EES-svæðinu og hafa vaxtatekjur á Íslandi verði ekki heimilaðir allir þeir sömu frádrættir sem íslenskum aðilum eru heimilaðir geti verið um brot á EES samningnum að ræða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert