Hjálparskip í óvissu á Srí Lanka

Skipið Captain Ali.
Skipið Captain Ali.

Skipið Captain Ali, sem sigldi í apríl frá Bretlandi með hjálpargögn til Tamíla á Srí Lanka, liggur enn við festar í ytri höfninni í Colombo og ekki hefur fengist leyfi til að flytja vistirnar í land. Íslendingurinn Kristján Guðmundsson er um borð í skipinu.

Indversk stjórnvöld hafa beitt sér í málinu og á föstudag var tilkynnt, að stjórnvöld á Srí Lanka hefðu fallist á ósk A. M. Krishna, utanríkisráðherra Indlands, um að indverski rauði krossinn fengi að skipa vistunum upp. Að sögn fjölmiðla á Srí Lanka liggur skipið þó enn við festar. 

Skipið lagði af stað frá Ipswich í apríl með 884 tonn af matvælum, lyfjum og öðrum hjálpargögnum sem áttu að fara til Tamíla á Vannisvæðinu á norðurhluta Srí Lanka en þar fóru hundruð þúsunda á vergang vegna stríðsátaka stjórnarhers Srí Lanka og Tamíl-Tígranna. 

Skipið fékk hins vegar ekki að leggjast að bryggju í Colombo.  Samtökin Mercy Mission, sem útlægir Tamílar standa að,  skipulögðu siglinguna og í tilkynningu frá þeim, sem fjölmiðlar á Srí Lanka vitna til, segir að liðinn sé 51 dagur frá því skipið kom síðast í land og ástand áhafnar og farþega um borð sé orðið slæmt.  Skipið liggi nú við akkeri 5 mílur undan Chennai.

Þá kemur fram að farþegarnir, Uthayanan Thavarajasingam og Kristján Guðmundsson, hafi óskað eftir því formlega að fá að fara frá borði og taka næstu flugvélar til Lundúna og Íslands.

Stjórnvöld á Srí Lanka sökuðu Mercy Mission um að ætla að veita Tamíl-Tígrunum aðstoð. Samtökin neita því og segjast aðeins vera mannúðarsamtök og vilji aðstoða flóttamenn, sem nú hafast við í búðum á norðurhluta Srí Lanka.

Stjórnarherinn á Srí Lanka lýsti yfir fullum sigri á Tamíl-Tígrum í maí. 

Kristján Guðmundsson var um tíma í norrænu eftirlitssveitunum á Srí Lanka. 

Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert