Króatar eru nú að átta sig á því að hliðið í Brussel er ekki galopið öllum; sett eru skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Tékkar, sem eru í forsæti sambandsins þetta misserið, ákváðu í liðinni viku að aflýsa um óákveðinn tíma næstu lotu aðildarviðræðna við Króata. Ástæðan er deilur Króata og Slóvena um Piran, litla borg og landsvæði við hana, deila sem hefur staðið frá því að ríkin lýstu bæði einhliða yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu árið 1991.
Heimildarmenn í Brussel segja að fyrst og fremst sé verið að þrýsta á Króata með þessari ákvörðun, fá þá til að slaka til. En málið rifjar um leið upp öll vandamálin sem því fylgja að taka inn í ESB ríki á Balkanskaga og jaðri hans, ekki síst ríki í gömlu Júgóslavíu. „Menn hafa það á tilfinningunni að þeir hafi verið of fljótir á sér þegar Búlgaría og Rúmenía fengu aðild,“ segir einn heimildarmaðurinn en illa hefur gengið að fá ráðamenn þessara tveggja landa til að taka af hörku á spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.
En einnig eru viðkvæm deilumál óleyst. Grikkir munu t.d. aldrei samþykkja að Makedónía fái aðild ef ríkið heldur nafninu sem einnig er notað yfir grískt hérað.
Gert hefur verið ráð fyrir því að Króatía fengi aðild 2010 eða 2011. Landamæradeilan er snúin. Minnstu munaði að hún kæmi í veg fyrir að Króatar fengju aðild að Atlantshafsbandalaginu fyrr á árinu. En Slóvenar, sem einnig urðu NATO-þjóð á undan Króötum, ákváðu á síðustu stundu að láta af andstöðu sinni.
En hefur snurðan sem komin er á þráðinn í viðræðum við Króatíu eitthvað breytt stöðu Íslendinga ef til umsóknar kemur? Talskona Rehns, Krisztina Nagy, var spurð en hún taldi að svo væri ekki.
„Eitt af grundvallaratriðunum í stækkunarstefnu ESB er að sérhver þjóð sem sækir um aðild er metin á eigin forsendum. Sá árangur sem hver þjóð nær fer eftir því hve vel henni gengur að fullnægja skilyrðum fyrir aðild,“ sagði Nagy.
Vandi Slóvena er að þeir hafa lítinn aðgang að sjó, öll strandlengja þeirra aðeins um 46 km löng. Strandlengja Króata er hins vegar um 1700 km löng. Landamærin skiptu litlu þegar bæði löndin voru hluti af Júgóslavíu. En Króatar vilja að landamærin verði um miðjan flóann við Piran. Slóvenar óttast að skip þeirra fái þá ekki beinan aðgang að úthafinu.
Slóvenar vilja að sáttasemjari á vegum ESB, t.d. Finninn Martti Ahtisaari, finni lausn en Króatar að málið fari fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. En þjóðríki standa fast á sínu, hvort sem þau eru innan ESB, á leiðinni inn eða standa fyrir utan.