Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglu Suðurnesja eftir líkamsárás á Sólseturshátíðinni í Garði í nótt. Að sögn lögreglu verður hann yfirheyrður í dag. Fórnarlambið hlaut minniháttar meiðsl og þurfti ekki á aðhlynningu að halda eftir árásina.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra lögreglunnar komu lögreglumenn auga á slagsmálin á öðrum tímanum í nótt og stöðvuðu þau hið snarasta. Árásarmaðurinn sparkaði þá í fórnarlamb sitt þar sem það lá í jörðinni. Hann var handtekinn og færður í lögreglubíl. Félagi mannsins reyndi að frelsa hann úr bílnum en hafði ekki erindi sem erfiði.
Að öðru leyti var nóttin róleg hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Einn ökumaður var þó stöðvaður í morgun vegna gruns um ölvun við akstur.