Kára Þorkelssyni hlotnaðist á dögunum sá heiður að vera valinn besti námsmaðurinn í efnaverkfræði og efnafræði þegar hann útskrifaðist með tvöfalda BS-gráðu frá Berkeley-háskólanum í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Verðlaununum fylgdi einnig sá heiður að nafn hans er grafið á skjöld sem hangir á skrifstofum deildanna tveggja.
Að auki bauð efnafræðideildin til sérstaks hádegisverðar, Kára til heiðurs, þar sem hann og foreldrar hans snæddu með nokkrum prófessorum við deildina og loks veitti efnaverkfræðideildin honum peningaverðlaun fyrir árangurinn.
Kára bauðst doktorsnám í hinum virta MIT-háskóla á austurströndinni á fullum styrk en kaus gamla skólann sinn vegna spennandi rannsókna sem leiðbeinandi hans síðustu tvö árin fer fyrir.
Kári er aðeins 21 árs en hann hefur búið vestanhafs síðan hann var 10 ára. Hann býr á heimavistinni í Berkeley en foreldrar hans, Þorkell Guðmundsson rafmagnsverkfræðingur og María Kjartansdóttir hagfræðingur, búa í San Jose, skammt sunnan við San Francisco. Hann stefnir á heimsókn til Íslands í ágúst ásamt fjölskyldu sinni en þá verður systir hans fermd.