22 tonn af þorski á fyrsta degi

Smábátar við Hafnarfjarðarhöfn.
Smábátar við Hafnarfjarðarhöfn. Þorkell Þorkelsson

Fyrsti sóknardagur strandveiða samkvæmt nýrri reglugerð um slíkar veiðar var í gær. Að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, höfðu í gær um sjötíu bátar fengið leyfi til strandveiða samkvæmt reglugerðinni.

Samkvæmt reglugerðinni er í júní, júlí og ágúst þessa árs heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að veiða allt að 3.955 lestir af þorski á handfæri og reiknast sá afli ekki til aflamarks þeirra skipa sem veiða á handfæri samkvæmt reglugerðinni.

„Ég held að þetta verði góð lyftistöng, mér finnst þetta líka vera jákvætt að því leyti að gerir ímyndina í kringum sjávarútveginn og stjórn fiskveiða jákvæðari,“ segir Örn um strandveiðarnar.

Örn segir að tekið hafi verið tillit til margra athugasemda sambandsins við gerð reglugerðarinnar en þó ekki allra. Mestu muni um að þeir sem veiða í atvinnuskyni í skjóli kvóta geti ekki stundað strandveiðar samkvæmt reglugerðinni tímabundið. „Um leið og menn eru komnir inn í strandveiðikerfið eru þeir bundnir þar út fiskveiðiárið,“ segir Örn. Með þetta sé nokkur óánægja meðal smábátaeigenda en gerð var athugasemd við fyrirkomulagið á sínum tíma.

22.332 kg af þorski var landað í gær og 592 kg af ufsa. Löndun ýsu og steinbíts var innan við 10 kg. Um hádegi hafði engu verið landað í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka