Bongóblíða á Egilsstöðum

Veðrið hefur leikið við hvern sinn fingur á Egilsstöðum.
Veðrið hefur leikið við hvern sinn fingur á Egilsstöðum. Mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Veðrið leikur sannarlega við íbúa Austfjarða þessa dagana og er nú 23 stiga hiti á Egilsstöðum og sjálfvirk veðurstöð á flugvellinum mældi 26,3 stiga hita. Mikill mannfjöldi hefur sótt sundlaugarnar. Spáð er áframhaldandi blíðu út vikuna. 

„Hér við sundlaugina liggur hver kroppurinn við hliðina á öðrum, það minnir á sellátur að líta hér yfir, “segir Hafsteinn Ólason, hjá Íþróttamiðstöð Egilsstaða. Hann sagði löggiltan hitamæli sýna 23,6 stig og að golan sem væri aðeins farin að gera vart við sig væri hreinlega blessun. „Eins og venjulega þegar veðrið er svona hefur sundlaugin verið vinsæl, það er búið að vera um þúsund manns í sundi á dag í þrjá daga núna," segir hann. „Loksins er sumarið almennilega komið.“

Bongóblíða hefur verið á Egilsstöðum í nokkra daga og iðar allur bærinn af lífi. Hafsteinn segir að síðustu helgi hafi fólk getað sótt djasshátíð, farið á dansiball og horft á torfærukeppni svo fátt eitt væri nefnt. Lambasteik væri að finna á öðru hvoru grilli og ilmurinn svifi yfir öllu.

Hafsteinn sagði að Atlavíkin væri sneysafull af fólki og sjálfur væri hann þar með fellihýsi þessa dagana. „Hitinn var ennþá 15 stig þar klukkan eitt í nótt,“ segir hann. Lífið væri ósköp ljúft á Egilsstöðum um þessar mundir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka