Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á borgarafundi í Iðnó í kvöld að ekkert hefði verið sparað til að aðstoða samninganefndina sem gerði samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-skuldbindingarnar.
Sagði Steingrímur að meðal annars hefðu lögfræðingar, bæði innlendir og erlendur, verið ráðnir til að veita nefndinni ráðgjöf, þar á meðal virt bresk lögfræðistofa.
Þá sagði hann að í nefndinni hefðu setið, auk Svavars Gestssonar, sendiherra og formanns, lögfræðingar, viðskiptafræðingar og hagfræðingar úr forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Seðlabanka. Allar þessar stofnanir stæðu með sínum fulltrúum og mæltu með þessum samningi.
Gunnar Sigurðsson, fundarstjóri, spurði Steingrím hvernig hann hefði brugðist við á borgarafundi ef Sjálfstæðismenn hefðu verið við völd og valið Hannes Hólmstein Gissurarson til að stýra samninganefndinni. Steingrímur svaraði að Svavar væri reyndur samningamaður og sjálfur myndi hann treysta mörgum sjálfstæðismönnum til verks á borð við þetta.