Fréttaskýring: Gífurlegt afl liggur ónýtt í fallvatninu

Þriggja gljúfra stíflan í Yangtze-fljóti í Kína. Samanlagt er afl …
Þriggja gljúfra stíflan í Yangtze-fljóti í Kína. Samanlagt er afl virkjananna 22,5 gígawött, um það bil 32-falt afl Kárahnjúkavirkjunar. Reuters

Þótt raunhæft sé að tvöfalda rafmagnsframleiðslu með vatnsafli á næsta áratug eða svo mun hlutur þessa umhverfisvæna orkukosts í heildar-raforkuframleiðslu heimsins ekki aukast að ráði. Ástæðan er einföld: nýjar virkjanir ná ekki að halda í við kolaorkuverin sem spretta upp eins og gorkúlur í Kína.

Eins og staðan er hefur um þriðjungur vatnsaflsins í heiminum verið nýttur og því svigrúm til að þrefalda núverandi framleiðslugetu.

Ekki verður þó hægt að virkja allsstaðar. Það liggur í augum uppi. Aðrar þjóðir eiga sinn Gullfoss.

Það má hins vegar auka nýtni núverandi innviða með tækni sem við fyrstu sýn virðist mótsagnakennd.

Orka vatnsins er sótt í fallþunga þess, þegar það knýr hverflana og með því að dæla því upp í uppistöðulón má því auka hagkvæmni margra virkjana verulega frá því sem nú er.

Mikið svigrúm í Asíu og Afríku

Svigrúmið er langmest í Asíu þar sem virkjun ónýttra virkjunarkosta myndi tvöfalda núverandi raforkuframleiðslu úr vatnsafli.

Eftirspurnin er gífurleg. Risavirkjunin í Þriggja gljúfra stíflunni í Kína jók hlut vatnsaflsins í landinu aðeins tímabundið, enda eru að jafnaði opnuð tvö kolaorkuver á viku eða svo í þessu fjölmennasta ríki heims, þrátt fyrir að virkjunin, sem er um 32 sinnum öflugri en Kárahnjúkavirkjun, sé stærsta vatnsaflsvirkjun sögunnar.

Kallar á sterkari stíflur

Vatnsaflið sækir orku í hverflatæknina, tækni sem áratuga reynsla er komin á, og segir Taylor nýtnina yfirleitt um 90%. Aukning umfram það kalli á útgjöld sem ekki sé víst að muni skila sér í auknum arði.

Taylor segir að stöðugt sé verið að uppgötva nýja virkjunarkosti og hagkvæmni virkjunarkosta sem áður voru taldir óarðbærir.

Hann segir jafnframt að margar virkjanir í Evrópu séu komnar á aldur og því verði brýnt að lengja líftíma þeirra um leið og þær verði lagaðar að hlýnun og breyttum markaðsaðstæðum þar sem þörf krefur. Meðalaldur stíflna í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, sé yfir hundrað ár. Margar endist mun lengur. Til hliðsjónar megi reikna með að hverflarnir endist í um þrjá til fjóra áratugi eða svo.

Fundað í Reykjavík

„Alþjóðlegu vatnsaflssamtökin eru stofnuð af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og er megintilgangur þeirra að vinna að sjálfbærni vatnsafls. Þingið í Reykjavík var líklega það þing samtakanna sem flestir áhrifamenn hafa sótt fram að þessu,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Landsvirkjun Power og stjórnarmaður í Alþjóðlegu vatnsaflssamtökunum.

Bjarni segir alþjóðasamtök á borð við Oxfam, World Wildlife Fund og Nature Conservancy í Bandaríkjunum koma að starfi samtakanna, auk Alþjóðabankans og fleiri banka. Þá taki ýmsar ríkisstjórnir og ráðherrar nokkurra Afríkuríkja þátt í starfinu, að frátöldum vatnsorkugeiranum.

Meginmarkmið samtakanna sé að vinna að sjálfbærni vatnsaflsins, enda fari þar einn besti orkukosturinn nú um stundir sem bjóði upp á mun ódýrari orku en sólar- og vindorkan sem eigi þó framtíðina fyrir sér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert