Frumvarpi um ríkisábyrgðir vegna Icesave verður dreift á Alþingi í dag en ríkisstjórnin samþykkti á sérstökum aukafundi í morgun að það færi til meðferðar í þinginu. Þingflokkar stjórnarflokkanna ræða það eftir hádegið en í kjölfarið verður því dreift.
Steingrímur J. Sigfússon segir fjölmörg gögn eiga eftir að koma fram sem styðji þær fullyrðingar að önnur leið hafi ekki verið fær. Í Fréttablaðinu í morgun er greint frá yfirlýsingu sem Davíð Oddsson og Árni Mathiesen undirrituðu um að Ísland ábyrgðist innstæðurtryggingar.
Steingrímur segir áformað að þetta þing afgreiði málið og því sé óljóst hvenær þingi lýkur. Þetta taki þó að minnsta kosti tvær vikur. Hann segist bjartsýnn á að málið verði afgreitt, Hann nálgist málið af æðruleysi. Örlögin hafi falið honum að reyna að greiða úr þessari skelfilegu stöðu og það hafi hann reynt að gera eftir bestu samvisku.
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, sem lýst hefur miklum efasemdum um Icesace-samningana, segir að nú haldi menn ró sinni og ræði málin í þinginu.