Ísland verði þátttakandi í loftslagskerfi ESB

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra með Paula Lehtomaki, umhverfisráðherra Finnlands og Andreas …
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra með Paula Lehtomaki, umhverfisráðherra Finnlands og Andreas Carlgren, umhverfisráðherra Svíþjóðar. Umhverfisráðuneytið

Ísland verði þátttakandi að heildarfyrirkomulagi ESB um losun gróðurhúsalofttegunda. Þátttaka Íslands myndi einfalda mjög framkvæmd loftslagsmála hér á landi og auðvelda fyrirtækjum og stjórnvöldum alla vinnu á þessu sviði. 

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna komu saman til fundar í Lúxemborg til að undirbúa umhverfisráðherrafund Evrópusambandsins. Stærsta mál þess fundar að þessu sinni var loftslagsmál og staða samningaviðræðna í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember. Lögð var áhersla á forystu ESB í viðræðunum og það mun koma í hlut Svíþjóðar að leiða viðræðurnar af hálfu ESB.

Ísland verði hluti af heildarfyrirkomulagi ESB

Í fréttatilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu kemur fram að Svandís Svavarsdóttir hafi átt sérstakan fund með Andreas Carlgren, umhverfisráðherra Svíþjóðar, þar sem rætt var um fyrirliggjandi beiðni ríkisstjórnar Íslands um formlegar viðræður við ESB um að Ísland verði þátttakandi í heildarfyrirkomulagi ESB um losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland er þegar aðili að viðskiptakerfi ESB (ETS) og frá og með 1. janúar 2013 mun nærri helmingur losunar Íslands falla undir það (t.d. alþjóðaflug og stóriðja).

Önnur losun en sú sem fellur undir viðskiptakerfið mun falla undir almenn losunarákvæði ESB (Effort Sharing), þ.á.m. samgöngur, sjávarútvegur, byggingariðnaðar, þjónusta, smærri iðnfyrirtæki, landbúnaður og úrgangur. Þátttaka Íslands í heildarfyrirkomulagi ESB mun, ef á hana verður fallist, einfalda mjög framkvæmd loftslagsmála hér á landi og auðvelda fyrirtækjum og stjórnvöldum alla vinnu á þessu sviði.      

Það fellur í hlut Svíþjóðar sem formennskulands ESB á síðara misseri ársins 2009 að taka málið til formlegrar afgreiðslu. Sænski umhverfisráðherrann tók málaleitaninni vel og sagðist mundi gera allt sem í hans valdi stæði til að greiða fyrir samkomulagi milli ESB og Íslands.

Á fundi norrænu umhverfisráðherranna var m.a. fjallað um framkvæmdaáætlun ESB um líffræðilegan fjölbreytileika (EU Biodiversity Action Plan), dreifingu erfðabreyttra lífvera og hertar reglur um mengun frá iðnaði.

Líffræðileg fjölbreytni 

Markmið ESB á sviði líffræðilegrar fjölbreytni er að koma í veg fyrir að framandi tegundir skjóti rótum í Evrópu og að stöðva hnignun líffræðilegs fjölbreytileika árið 2010. Nú liggur fyrir áfangaúttekt um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og horfur eru á að síðarnefnda markmiðið náist ekki þó að starf ESB á þessu sviði hafi skilað margvíslegum jákvæðum árangri.

Líffræðilegur fjölbreytileiki er ekki hluti af EES samningnum en málið varðar Ísland eigi að síður miklu þar sem Ísland er aðili að samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika sem undirritaður var á Ríó-ráðstefnunni árið 1992 og staðfestur af hálfu Íslands árið 1995.

Ræktun og dreifing erfðabreyttra lífvera           

Mál er varða erfðabreytta ræktun lífvera og dreifingu þeirra út í náttúruna hafa verið ofarlega á baugi á vettvangi ESB undanfarið. Nokkur ESB lönd hafa lagt á það áherslu að hvert og eitt sambandslandanna eigi að geta ákveðið hvert fyrir sig hvort slík ræktun fari fram innan sinna landamæra. Meirihluti virðist vera fyrir því innan ráðherraráðsins að beina því til framkvæmdastjórnar ESB að hvert land fái að ákveða slíkt á eigin forsendum. Ísland hefur tekið upp reglur ESB varðandi ræktun og dreifingu erfðabreyttra lífvera.

Auk umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sóttu fundinn af Íslands hálfu Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu og Ingimar Sigurðsson, fulltrúi umhverfisráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert