Meðferðarheimili rannsökuð

Meðferðarheimilið að Breiðuvík.
Meðferðarheimilið að Breiðuvík. mbl.is/Ómar

Nefndinni sem rannsakaði meðferð barna á vistheimili ríkisins að Breiðuvík og hefur síðan unnið að rannsóknum að fleiri vist- og meðferðarheimilum hefur nýlega fengið upplýsingar um 75 til 90 fyrrverandi nemendur og vistmenn sem veita þarf kost á að koma til viðtals um aðbúnað og meðferð barna á þessum stofnunum.

Í ljósi þessa hefur nefndin ákveðið að fresta því að birta  niðurstöður könnunar á starfsemi vistheimilisins Reykjahlíðar og heimavistarskólans Jaðars og birta þær í áfangaskýrslu sem áætlað er að komi út að ári.

Nefndin sem rannsakaði Breiðavíkurmálið hefur gert lista yfir þau vist- og meðferðarheimili sem verða rannsökuð á næstunni og er könnun á þremur þeirra á lokastigi.

Þau heimili sem nefndin hefur lagt til að að verði könnuð með þessum hætti eru: 

  1. Vistheimilið Kumbaravogur
  2. Heyrnleysingjaskólinn
  3. Stúlknaheimilið Bjarg
  4. Vistheimilið Reykjahlið
  5. Heimavistarskólinn Jaðar
  6. Upptökuheimili ríkisins
  7. Unglingaheimili ríkisins
  8. Vistheimilið Silungapollur

Könnun nefndarinnar á starfsemi vist-heimilisins Kumbaravogs, stúlknaheimilisins Bjargs og Heyrnleysingjaskólans mun nú vera á lokastigi. Í tilkynningu frá nefndinni segir einnig að könnun nefndarinnar á vistheimilinu Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðri sé komin vel á veg.

Í tilkynningu frá nefndinni segir: „Könnun nefndarinnar undanfarin misseri hefur verið afar umfangsmikil. Hefur nefndin þegar rætt við 170 einstaklinga, fyrrverandi vistmenn, fyrrverandi nemendur og aðra sem nefndin hefur talið geta varpað ljósi á starfsemi þeirra stofnana sem nefndin hefur nú tekið til könnunar."

Nefndina skipa Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem er formaður hennar, Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Landspítalanum, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lögfræðingur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka