Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum Axels Kristjánssonar, fyrrverandi aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands. Axel krafðist leiðréttinga á lífeyrisgreiðslum aftur til ársins 1998 og taldi að greiða ætti hlutdeild samkvæmt svokallaðri eftirmannsreglu.
Axel Kristjánsson hóf störf hjá Útvegsbanka Íslands í mars 1954 og var fyrst ráðinn til almennra lögfræðistarfa. Rúmum áratug síðar var hann ráðinn aðallögfræðingur bankans en því starfi gegndi hann allt til 1. júní 1984 er hann var ráðinn aðstoðarbankastjóri bankans. Gegndi hann starfi aðstoðarbankastjóra ásamt starfi aðallögfræðings bankans til 1. maí 1987 en þá hafði honum verið sagt upp störfum nokkru áður.
Með setningu laga um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, sem tóku gildi 19. mars 1987, var ríkisbankinn Útvegsbanki Íslands lagður niður og við réttindum og skyldum hans tók nýtt hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Með tilkomu laganna var öllu starfsfólki ríkisbankans sagt upp störfum og það síðan allt endurráðið til hins nýja banka, að fjórum einstaklingum undanskildum, þ.e.a.s. bankastjórunum þremur og Axel Kristjánssyni.
Tveimur dögum eftir að hlutafélagsbankinn var formlega stofnaður var gefin út ákæra á hendur fjórmenningunum vegna Hafskips/Útvegsbankamálsins. Þáverandi ráðherra bankamála sá sér ekki fært vegna ákærunnar að óska eftir því að þeir yrðu endurráðnir eins og raun varð á um nánast allt annað starfsfólk ríkisbankans.
Uppsögnin stóð því og aðstoðarbankastjórinn hóf töku eftirlauna að loknum uppsagnarfresti sem var eitt ár.
Samkvæmt þágildandi lögum um Útvegsbanka Íslands, ákvað bankaráð laun og kjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra, þ.m.t. eftirlaun. Áður en Axel sótti um starf aðstoðarbankastjóra, og var ráðinn í það starf, kveður hann bankaráðið margoft hafa ákveðið og bókað í fundargerðarbók sína að laun bankastjóra skyldu vera hin sömu og laun bankastjóra Landsbanka Íslands. Þá hafi bankaráðið og ákveðið að laun aðstoðarbankastjóra skyldu vera 80% af launum bankastjóra. Þessi kjör hafi því ekki verið ákveðin með samningum, heldur einhliða af bankaráði. Þegar maðurinn var ráðinn aðstoðarbankastjóri kveðst hann hafa tekið laun samkvæmt kjarasamningum bankamanna, en eftir það hafi hann tekið laun samkvæmt ákvörðun bankaráðs.
Axel Kristjánsson vísaði í samþykkt bankaráðs Útvegsbanka Íslands á fundi þess 27. apríl 1967 þar sem segir að þegar bankastjóri hafi náð 60 ára aldri, eigi hann rétt til eftirlauna eftir starfstíma hans í bankanum. Fyrir 10 ára starf greiðist í eftirlaun 70% af fastakaupi bankastjóra, eins og það er á hverjum tíma. Samkvæmt viðmiðunarreglu bæri aðstoðarbankastjóranum því að fá 80% af þeirri upphæð á hverjum tíma.
Nokkrum árum eftir að Axel Kristjánsson hóf töku eftirlauna kveðst hann hafa orðið þess áskynja, eftir að hafa kynnt sér efni greinargerðar sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í janúar 1994 um laun og önnur starfskjör helstu yfirmanna ríkisbanka og sjóða, að eftirlaun hans voru vanreiknuð. Í kjölfarið hafi vegferð hans hafist í því skyni að fá leiðréttingu sinna mála. Vegferðin hafi formlega hafist árið 1996 og hafi staðið yfir síðan, eða í hartnær 12 ár og enn sjái ekki fyrir endann á henni.
Axel telur sig eiga inni umtalsverðar fjárhæðir og vitnaði til þess að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna til hans eins og hún var 1. janúar 1998 hefði átt að fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn frá 1. janúar 1998 til 1. nóvember 2008 en frá og með þeim degi skuli viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna miðast við laun bankastjóra Nýja Landsbanka Íslands, eins og þau eru á hverjum tíma.
Samkvæmt ákvörðun bankaráðs Landsbanka Íslands frá í nóvember 1997 miðaðist mánaðarleg viðmiðunarfjárhæð lífeyris bankastjóra bankans við 550 þúsund krónur. Ef reiknað er út frá launakjörum bankastjóra nýju ríkisbankanna væru lífeyrisgreiðslur nær einni milljón króna til aðstoðarbankastjórans fyrrverandi.
Héraðsdómur Reykjavíkur sagði kröfur Axels hvorki styðjast við samninga né ákvæði laga eða reglna. Ekki hefði verið sýnt fram á annað en að eftirlaun hans sæti sömu viðmiðum og annarra sem svipað eru settir. Dómurinn fellst ekki á það með Axel að ákvarðanir varðandi eftirlaun hans hafi verið ómálefnalegar eða andstæðar lögum eða stjórnarskrá.
Dómurinn sýknaði íslenska ríkið af öllum kröfum hans en taldi rétt að hvor aðili um sig bæri sinn kostnað af málinu.