Skelfileg reynsla Skota af fiskveiðistefnu ESB

Reynsla skosks sjávarútvegs af ESB undanfarna áratugi er í einu orði sagt skelfileg. Samkvæmt óháðu mati er talið að skoskt samfélag verði af um 300 milljarða króna árlegri veltu vegna öfugþróunar í sjávarútvegi undanfarna áratugi, sem beint og óbeint megi rekja til fiskveiðistefnu ESB. Þetta segir Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, í grein í Fiskifréttum.

Hann vitnar þar til ummæla Dr. James Wilkie, sem starfar fyrir Iðnaðar- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, Leslie Girvin, varaformanns bresku sjómannasamtakanna FAL og varaformanns útgerðarsamtakanna NIFPO á Norður-Írlandi og Peter Adams, framkvæmdastjóra UK Independence flokksins í Skotlandi. Þremenningarnir komu hingað í síðustu viku á vegum Heimssýnar og fluttu erindi í Háskóla Íslands.

Sveinn Hjörtur Segir að þremenningarnir hafi komið hingað til þess að vara okkur Íslendinga við því að gera sömu mistök og Bretar gerðu 1972, þegar þeir fórnuðu sjávarútvegshagsmunum sínum við inngöngu í ESB.

„Þremenningarnir færðu margvísleg rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að engar líkur væru á því að Íslendingar muni fá í aðildarviðræðum sérmeðferð í sjávarútvegsmálum eða öðru í neinu sem skipti máli. Það væri framkvæmdastjórnin í Brussel sem ávallt hefði ákvörðunarvaldið í öllum meginatriðum varðandi sjávarútvegsmál sambandsins. Þetta væri reynslusaga Breta og Norðmanna í viðleitni þeirra til að fá undanþágu frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni,“ segir Sveinn Hjörtur Hjartarson í grein sinni.

Sveinn segir að báðar þessar þjóðir hafi augljóslega meiri vigt við samningaborðið en Íslendingar en hefðu þrátt fyrir það ekki náð fram neinum varanlegum undanþágum í sínum sjávarútvegsmálum. Í besta falli væri hægt að fá tímabundnar undanþágur.

„Lýsingar þeirra félaga á því hvernig skoskum sjávarútvegi hefur farnast undanfarna áratugi var einu orði sagt skelfileg. Ástæðuna sögðu þeir að öllu virtu liggja í stórvarasamri fiskveiðistefnu ESB, sem meira að segja stjórnvöld í Brussel viðurkenna að hafi reynst mistök á mistök ofan,“ segir Sveinn Hjörtur í grein sinni.

Hann bætir við að hún sé mikil ábyrgð þeirra sem hyggjast koma Íslandi inni í ESB með öllum tiltækum ráðum og séu jafnvel tilbúnir að setja í meðgjöf ein verðmætustu fiskimið í Norður – Atlantshafi. Sveinn Hjörtur segir að fáar þjóðir muni eiga jafn ríkra hagsmuna að gæta gagnvart okkur og einmitt Bretar í ljósi sögunnar.

„Telja menn virkilega að þeir muni láta það viðgangast að Íslendingar verði stikkfrí gagnvart sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB ef til inngöngu kemur? Ja, mikil er trú þeirra manna þó ekki væri nema með vísan til nýfenginnar reynslu okkar af samningum við Breta í öðru og óskyldu máli – Icesave,“ spyr Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ.

Grein Sveins Hjartar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert