Við lokaafgreiðslu frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem samþykkt var á Alþingi í dag, var samþykkt breytingartillaga frá meirihluta efnahags- og skattanefndar þingsins um að svonefndur sykurskattur verði lagður á með hækkun vörugjalds en ekki virðisaukaskatts.
Í framhaldsáliti nefndarmeirihlutans segir, að í þeim tilgangi að sætta þau ólíku sjónarmið sem fram komu í umræðu innan nefndarinnar um málið sé lagt til að tekið verði upp að nýju það vörugjaldskerfi á matvæli sem lagt var af 1. mars. 2007 og vörugjaldið verði jafnframt hækkað.
Fram kemur að samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins ætti þessi útfærsla að skila ríkissjóði sömu viðbótartekjum og tilfærsla milli virðisaukaskattsþrepa, þ.e. 2,5 milljörðum króna á ársgrundvelli og svipuðum verðlagsáhrifum þegar á heildina er litið.