200 milljarðar á gjalddaga 2011

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Ómar Óskarsson

Gjalddagar stórra gjaldeyrislána, sem ríkissjóður tók árin 2006 og 2008, eru árið 2011. Nemur sú skuld um 200 milljörðum króna en lánin voru á sínum tíma tekin til að styrkja gjaldeyrisforðann. 

„Það er auðséð að menn ráða ekkert við það í endurgreiðslu, allra síst í þessu árferði, þannig að þetta þarf að endurfjármagna með einhverjum hætti,“ segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Þá nema skuldir gömlu bankana við Seðlabanka Íslands, sem ríkissjóður yfirtók, tæpum 300 milljörðum króna að sögn Indriða.

Áætlað er að heildarskuldir ríkissjóðs verði um 130% landframleiðslu, um 1800 milljarðar, á þessu ári. Kemur þetta fram í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Ekki er reiknað með skuldbindingum vegna Icesave í þessari tölu en Indriði segir að þær muni þegar upp er staðið nema 3-400 milljörðum. Ríkissjóður byrjar ekki að greiða þá fjárhæð fyrr en árið 2016.

Fram kom hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, á opnum borgarafundi um Icesave í gærkvöldi, að skuldbindingarnar vegna Icesave væru ekki stærsta áhyggjuefnið heldur væru aðrir nærtækari hlutir hættulegri íslenska þjóðarbúinu.

Að sögn Indriða verða önnur lán og vextir af þeim, sem þarf að greiða áður en greiðslur vegna Icesave-skuldbindinganna hefjast „stærri biti að kyngja heldur en sú greiðslubyrði sem verður eftir 2016.“ 

Skýrsla fjármálaráðherra verður tekin fyrir á Alþingi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka