Ættu að líta til Íslands

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. mbl.is/Heiðar

Dálkahöfundur bandaríska blaðsins New York Times segir, að lönd ættu að líta til Íslands þegar þau byggja upp efnahagskerfi sitt eftir fjármálakreppuna. Þjóðir heims hafi til þessa ekki verið sérlega ginnkeyptar fyrir því að framfylgja erfiðri endurreisnaráætlun eins og Íslendingar geri nú. 

Blaðamaðurinn, Rob Cox, segir að þótt Íslendingar hafi farið afar illa út úr fjármálakreppunni þurfi ekkert að vorkenna þeim. Ólíkt mörgum öðrum löndum, sem misstu sig vegna ódýrs lánsfjár, standi Ísland að mörgu leyti vel. Þjóðin sé ung og vel menntuð, lífeyrissjóðakerfið sé sterkt og þar séu auðugar náttúruauðlindir.

Á móti komi, að Íslendingar þurfi að fást við gríðarlegar skuldir, efnahagserfiðleika og eignabruna. Íslendingar virðist gera sér grein fyrir því, að það þarf að færa fórnir svo þjóðin geti orðið efnahagslega sterk á ný. Og á mánudag hafi Alþingi samþykkt frumvarp, sem var svo úttroðið af skattahækkunum, að jafnvel skattaglöðustu stjórnmálamenn í Washington myndu fá hroll. Einnig sé í frumvarpinu gert ráð fyrir niðurskurði í ríkisfjármálum, sem myndi ganga fram af hörðustu íhaldsmönnum.

„Hugmyndaauðgi, mikil vinna og sparnaður gætu gert Íslendingum kleift að koma sterka út úr erfiðleikunum. Aðrar skuldugar þjóðir, sem eiga í erfiðleikum vegna fjármálakreppunnar, taka undir hugmyndir um nýsköpun. En til þessar hafa fáar sýnt vilja til að undirgangast hina erfiðari þætti endurreisnaráætlana á borð við þá íslensku. Það væri ráð fyrir þær að fylgjast betur með," segir Cox.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert