Fjarskiptafyrirtækin fóru of geyst

„Eignarhaldsfélög íslensku fjarskiptafélaganna hafa, eins og mörg sambærileg félög, farið geyst í fjárfestingum og lántökum. Slíkt leggur þungar byrgðar á herðar þeirra nú. Ljóst er að fjarskiptafélögin sinna grunnþjónustu í þjóðfélaginu og rekstur þessara fyrirtækja verður að vera með þeim hætti að ekki sé hætta á truflunum eða stöðvun,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í ársskýrslu stofnunarinnar.

Forstjóri PFS segir í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir 2008 að í upphafi kreppunnar hafi helstu fjarskiptafélög verið boðuð til fundar hjá stofnuninni til að tryggja að engin truflun eða rof yrðu á fjarskiptum. Undirbúningur neyðaráætlana hafði hafist nokkru áður í framhaldi af setningu reglna um vernd og virkni fjarskiptaþjónustu. Lokið var við þessar áætlanir á skömmum tíma.

Einnig var tryggt að fjarskiptafélögin fengju nauðsynlega fyrirgreiðslu í bankakerfinu varðandi erlend viðskipti til að tryggja að erlendir birgjar og samstarfsaðilar hefðu áfram fullt traust á íslensku fjarskiptafélögunum. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS segir að engar truflanir hafi orðið á rekstri fjarskiptafélaganna sökum kreppunnar svo vitað sé.

Ársskýrsla PFS

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert