Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur breytt aðferðafræði varðandi mat á lánshæfi fyrirtækja í eigu opinberra aðila. Afleiðingin er sú, að lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar vegna erlendra skuldbindinga lækkar úr BBB- í BB með stöðugum horfum. Lánshæfi á innlendum skuldbindingum lækkar einnig í BB með stöðugum horfum.
Landsvirkjun segir að hin breytta aðferðafræði hafi í för með sér alþjóðlega, að Standard & Poor’s lækkaði í dag lánshæfi á tveimur fyrirtækjum í opinberri eigu, hækkaði lánshæfi á fimm og setti tíu fyrirtæki á athugunarlista.
Landsvirkjun fékk fyrst lánshæfiseinkunn árið 1998 og er þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið fær einkunn sem er lægri en sambærileg einkunn ríkissjóðs.
Fyrirtækið segir, að í lánssamningum þess séu engin ákvæði, sem kalli á uppsögn eða breytingar þó að lánshæfi lækki. Breytingin nú hafi því engin áhrif á vaxtakjör á eldri lánum fyrirtækisins. Breytingin hafi hins vegar, að öllu öðru óbreyttu, neikvæð áhrif á aðgengi Landsvirkjunar að nýju lánsfjármagni á viðeigandi kjörum.