Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu. Krafa lánveitanda á hendur lántaka skal því falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Þetta er megininntakið í frumvarpi til laga, sem sex þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum hafa lagt fram á Alþingi.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, en meðflutningsmenn hennar eru úr sama flokki og hún, Borgarahreyfingunni og Framsóknarflokknum.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, óttast að verði frumvarp þetta samþykkt gæti afleiðingin orðið lægra lánshlutfall við lánveitingar. Þess vegna segir hann að ekki sé víst að það yrði mikið til bóta. Hins vegar verði frumvarpið skoðað vandlega eins og aðrar hugmyndir sem fram komi og ætlað er að bæta stöðu heimilanna í landinu.
„Þar á meðal verður framkomið frumvarp þingmannanna án efa tekið til skoðunar, en ávinningurinn af því er hins vegar ekki borðleggjandi,“ segir Árni Páll. „Verði frumvarpið að lögum, eins og það liggur fyrir, er líklegt að óvissa lánveitenda aukist. Ég óttast því að afleiðingin gæti orðið lægra lánshlutfall við lánveitingar. Ekki er víst að það væri mikið til bóta. En þetta þarf að skoða vel.“
Þá segist Árni Páll ekki sjá í fljótu bragði hvernig hægt væri að láta ákvæði frumvarpsins ná til þegar gerðra skuldbindinga, eins og gert er ráð fyrir í því.
Þess má geta að Íbúðalánasjóður hefur alla jafna ekki verið að eltast við fólk sem hefur misst húsnæði sitt á nauðungaruppboði, í þeim tilvikum þar sem sjóðurinn hefur ekki fengið lán sín greidd að fullu. Viðkomandi hafa hins vegar ekki fengið fyrirgreiðslu hjá sjóðnum á ný fyrr en kröfurnar hafa verið greiddar eða þær afskrifaðar.
Frumvarpinu er ætlað að gilda um fasteignaveðlánasamninga sem þegar hafa verið gerðir og óháð því hvort lánastofnun lýtur eignarhaldi hins opinbera eða einkaaðila.