Tíu umsóknir bárust menntamálaráðuneytinu um stöðu Þjóðleikhússtjóra. Ein þeirra var dregin til baka en frestur til að skila umsókn var til 26. júní. Sagt er frá þessu á vef ráðuneytisins í dag.
Tinna Gunnlaugsdóttir, sitjandi þjóðleikhússtjóri, sækir um embættið en aðrir umsækjendur eru Ari Matthíasson, leikari; Hilmar Jónsson, leikstjóri; Hlín Agnarsdóttir, leikstjóri og rithöfundur; Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og fyrrum umhverfisráðherra; Magnús Ragnarsson, framleiðandi; Páll Baldvin Baldvinsson, fulltrúi ritstjóra; Sigurður Kaiser, framkvæmdastjóri og leikhúshönnuður; og Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og fyrrum leikhússtjóri Borgarleikhússins.
Ekki kemur fram hver dró umsókn sína til baka.
Menntamálaráðherra skipar í stöðuna til fimm ára.