3,85% vextir á norrænu lánunum

Stokkhólmur.
Stokkhólmur.

Vextir á 318 milljarða lánum Norðurlandanna til Íslands, sem skrifað var undir í Stokkhólmi í morgun eru 3,85%, eins og EURIBOR vextir voru í gær. Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, skýrði frá þessu á Alþingi í dag, vegna fyrirspurnar frá Birki Jóni Jónssyni, þingmanni Framsóknarflokksins.

Vextirnir eru breytilegir og taka mið af þriggja mánaða EURIBOR vöxtum með 2,75% álagi. Miðað við vaxtastig í gær eru vextirnir því 3,85% sem stendur.

Birkir Jón hafði gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að ætla að leyna því hver kjörin væru á þessum tæplega 1,8 milljarða evra lánum.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, blandaði sér í þessa umræðu og sagði þessar upplýsingar afar áhugaverðar. „Tólf ára lán á breytilegum vöxtum er ein stór óvissa, eins og alþjóð veit,“ sagði Vigdís. Hún sagði þetta bera vott um ábyrgðarleysi og að ríkisstjórnin vissi ekkert hvað hún væri að gera. Sögðu bæði hún og Gunnar Bragi Sveinsson, samflokksmaður hennar, að óvissan um vaxtakjörin væru óþolandi með hliðsjón af gjaldfellingarákvæðum Icesave-samninganna. 

Ef stjórnvöld gætu ekki borgað eðlilega af þessum lánum, væri hægt að gjaldfella lánin vegna Icesave, eins og þeir samningar kveða á um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert