Hækkanir launa sem samið var um frá og með 1. júlí við endurnýjun kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum í seinustu viku, koma ekki í vasa launþega, sem eiga rétt á þeim, fyrr en samkomulagið hefur verið afgreitt í aðildarfélögum ASÍ og í framhaldinu af samninganefnd ASÍ og jafnframt af stjórn Samtaka atvinnulífsins. Ekki er við því að búast að niðurstöður liggi fyrir fyrr en eftir einhverja daga.
Að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, eru flestir sem eiga að fá hækkunina á eftirá greiddum launum og þetta breytir því engu fyrir þá um þessi mánaðamót. En launamenn sem eru á fyrirfram greiddum launum fái leiðréttingu við næstu útborgun eftir að samkomulagið hefur verið afgreitt.