Fréttaskýring: Miðstöðin „löguð að“ breyttu umhverfi

Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri undirrituðu …
Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri undirrituðu minnisblað um samgöngumiðstöð í apríl.

Þrátt fyrir mikinn vilja samgönguráðherranna Sturlu Böðvarssonar og Kristjáns Möller hefur ekki enn verið hafist handa við að reisa samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni. Stjórnvöld hafa árangurslaust reynt að hraða byggingu miðstöðvarinnar allt frá árinu 2005, en allt hefur komið fyrir ekki.

Sturla, sem var samgönguráðherra á árunum 2003 til 2007 beitti sér sérstaklega fyrir því að miðstöðin yrði byggð, ekki síst til þess að bæta þjónustu við innanlandsflug í landinu. Flugstöðin í Vatnsmýri sem nú er notuð er komin til ára sinna og hafa ýmsir bent á að nauðsynlegt sé að skapa innanlandsfluginu betri aðstæður, ekki síst til þess að auka möguleikann á því að samkeppni skapist á markaðnum á jafnréttisgrundvelli. Tilraunir til þess hafa hingað til ekki tekist.

Breytt umhverfi

Í minnisblaði samgönguráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá 11. febrúar 2005 kemur fram að samgönguyfirvöld muni loka NA/SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar til þess að skapa svæði til annarra nota, þar á meðal samgöngumiðstöð. Deilur hafa verið á milli ríkis og borgar um þetta mál, þar sem vilji hefur verið til þess hjá borgarfulltrúum, þvert á flokka, að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Einróma sátt um málið hefur þó ekki verið fyrir hendi og því hefur framgangur málsins innan stjórnsýslunnar, þá helst hjá borginni, gengið hægt.

Hinn 8. apríl á þessu ári undirrituðu Kristján og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri annað minnisblað þar sem fyrri áform um byggingu miðstöðvarinnar voru áréttuð. Sérstaklega er tekið fram að hlutverk miðstöðvarinnar sé mikilvægt, „hvort sem innanlandsflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni eða ekki, enda er samgöngumiðstöð ætlað að hýsa alla samgöngustarfsemi í Vatnsmýrinni til framtíðar.“

Eftir hrun bankakerfisins á haustmánuðum í fyrra hafa fyrri áform um miðstöðina verið lögð á hilluna. Til stóð að hafa verslanir inni í miðstöðinni og jafnvel möguleika fyrir aðra nýtingu á húsinu í framtíðinni. Heildarkostnaður við miðstöðina eins og hún hafði verið áætluð var um 1,5 milljarðar króna.

Í fyrrnefndu minnisblaði frá 8. apríl kemur fram að miðstöðin verði „aðlöguð að breyttum efnahagsaðstæðum og færri farþegum en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun“. Útfærsla á þessum breytingum liggur ekki fyrir. Samgönguráðherra og Reykjavíkurborg hafa hvort um sig tilnefnt tengiliði við Flugstoðir til þess að vinna að framgangi málsins. Þeir hafa meðal annars það hlutverk að tryggja að makaskipti ríkis og borgar nái fram að ganga. Í þeim felst að ríkið afhendir borginni jafnverðmætt land í eigu ríkisins gegn lóð borgarinnar þar sem samgöngumiðstöð rís.

Þá eiga tengiliðirnir að vinna að því með Flugstoðum að ákvarða stærð miðstöðvarinnar, bílastæði og þess háttar.

Margt brýnna

„Ég tel samgöngumiðstöð ekki til forgangsmála í framkvæmdum,“ segir Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík og flokkssystir samgönguráðherra. Hún segir mörg verkefni vera brýnni en miðstöðina. „Auk þess tel ég hönnun og skipulagsvinnu sem tengist henni ekki vera komna á þann stað að hún rísi í bráð.“ Borgarfulltrúar í Reykjavík hafa hingað til verið tregir til þess að ráðast í gerð samgöngumiðstöðvar, þrátt fyrir sameiginlegar viljayfirlýsingar um byggingu miðstöðvarinnar. Oddný segir að borgarfulltrúar, hvar í flokki sem þeir standa, þurfi að taka ákvarðanir varðandi samgöngumiðstöðina með hagsmuni samgangna í Reykjavík að leiðarljósi. „Miðstöðin verður að vera byggð upp þannig að hagsmunir samgangna í Reykjavík séu í forgangi.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert