Mikilvægt að draga úr atvinnuleysi og styrkja velferðarkerfin

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra, Dag Terje Andersen, vinnumálaráðherra Noregs, Árni Páll …
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra, Dag Terje Andersen, vinnumálaráðherra Noregs, Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, Rósa Samuelsen, félagsmálaráðherra Færeyja, Maria Larsson, öldrunar- og lýðheilsuráðherra Svíþjóðar, og Bjarne Håkon Hanssen, heilsu- og velferðarráðherra Noregs.

Ef Norðurlandaþjóðirnar vilja vera leiðandi á heimsvísu í velferðarmálum verða þau að vera samtaka um að slá skjaldborg um velferðarkerfið og draga úr atvinnuleysi. Á tímum efnahagssamdráttar er norrænt samstarf jafnvel enn mikilvægara. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu félags- og heilbrigðisráðherra Norðurlandanna, en þeir funduðu í Reykjavík 29. og 30. júní sl.

Þá vildu ráðherrarnir auka samstarf um bætta geðheilsu í löndunum, efla þróunarstarf í að finna árangursríkustu meðhöndlun á sjúkdómum á hverjum tíma og vinna að því að auka möguleika fólks á að snúa aftur til starfa eftir veikindi.

Þetta kemur fram á heimasíðu Félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Þar segir að aðrir veigamiklir þættir sem rætt var um hafi verið um afleiðingar mismunandi þjóðfélagsþróunar landanna og lífstílssjúkdóma. Ákveðið var að leggja aukna áherslu á fyrirbyggjandi verkefni vegna sjúkdóma og leitast við að allir hafi tækifæri til að vinna fyrir sér og koma í veg fyrir að fólk verði útundan í þjóðfélaginu.

Í frétt á heimasíðu ráðuneytisins segir ennfremur:

Fram kom hjá finnska félags- og heilbrigðisráðherranum og sænska ráðherra öldrunar- og lýðheilsumála að afleiðingar atvinnuleysis hefðu orðið langvarandi í löndunum og sögðu mikilvægt að huga sérstaklega að atvinnustigi ungs fólks.

Skiptust ráðherrarnir á skoðunum um ástand mála í löndunum, sem öll glíma við afleiðingar efnahagssamdráttar.

Stefán Ólafsson prófessor gerði á fundinum grein fyrir efnahagskreppunni á Íslandi og bar hana saman við annars vegar fyrri efnahagskreppur í landinu og þá kreppu sem reið yfir Finnland og Svíþjóð á tíunda áratug liðinnar aldar.

Fjallaði Stefán sérstaklega um afleiðingar efnahagssamdráttar, þ.e. atvinnuleysi, skuldastöðu heimilanna, minnkandi ráðstöfunartekjur og hættuna á brottflutningi frá landinu. Engu að síður er von hans til þess að efnahagslífið á Íslandi yrði ef til vill til að jafna sig á kreppunni.

Á fundinum voru framtíðaráherslur samstarfsins á sviði velferðarmála ræddar og lögðu menn áherslu á að styrkja velferðarkerfin á tímum alþjóðavæðingar og vaxandi samkeppni á öllum sviðum.

Á fundinum var Norræna velferðarstofnunin í Stokkhólmi kynnt sérstaklega, ákveðið var að fela Háskólanum í Osló rekstur og eignarhald NIOM, stofnunar sem starfar á sviði tannheilsumála, áfangaskýrsla um samstarf á sviði áfengismála lögð fram og þá fóru fram umræður um hugsanlegt samstarf á sviði rafrænna lyfseðla.

Á ráðherrafundinum var rætt um kosti og galla öflugra og víðtækara samstarfs í viðbúnaði við heimsinflúensu. Haraldur Briem sóttvarnalæknir gerði grein fyrir samstarfi landanna og sjónarmiðum þeim sem íslensk sóttvarnayfirvöld hafa.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra buðu til fundarins, en fimm starfsbræður þeirra af Norðurlöndum sóttu fundinn, tveir frá Noregi, frá Svíþjóð, Finnlandi og Færeyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka