Fram kemur í lögfræðiáliti sem unnið er af alþjóðlegu lögfræðistofunni Ashurst LLP að skilmálar lána sem yfirvöld í Bretlandi og Hollandi veita íslenska ríkinu vegna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) séu sambærilegir við það sem tíðkast á alþjóðavettvangi.
Lögfræðiálitið er unnið að beiðni Schjödt, sem starfað hefur fyrir utanríkisráðuneyti Íslands. Það er dagsett 25. júní og var birt í gærkvöldi ásamt fjölda annarra skjala sem tengjast Icesave-deilunni.
Þá segir að skilmálar lánanna séu þó aðlagaðir að þeim sérstöku aðstæðum sem leitt hafi til lántökunnar.
Einnig segir að samkvæmt skilmálum lánanna afsali íslenska ríkið sér rétti til að skorast undan ábyrgð í málinu og að yfirvöld í Bretlandi og Hollandi geti sótt málið fyrir dómstólum standi íslenska ríkið ekki við þær skuldbindingar sínar eða reyni að mismuna lánadrottnum gamla Landsbankans. Að öðrum kosti megi höfða mál dómsgegn Seðlabanka Íslands í tengslum við málið.
Þá segir að standi TIF ekki við skuldbindingar sínar eða verði sjóðurinn leystur upp geti það haft áhrif til ógildingar samkomulagsins.
Fram kemur í úttektinni að skilmálar bresku og hollensku lánanna séu í grundvallaratriðum sambærilegir. Lánið sem hollenska ríkið veiti muni í mesta lagi nema 1.329.242.850 evrum og breska lánið muni í mesta lagi nema 2.350.000.000 pundum.
Lánin beri bæði 5,55% vexti fram til 5. júní árið 2016 er endurgreiðsla af lánunum hefjist. Endurgreiðsla muni síðan fara fram með 32 ársfjórðungslegum greiðslum á tímabilinu 5. júní 2016 til 5. mars 2024. Ágóði af sölu eigna gamla Landsbankans muni þó dragast frá þessum greiðslum.