Spá 10% samdrætti í landsframleiðslu

mbl.is

Framundan eru tvö erfið ár þar sem landsframleiðsla dregst mikið saman og lífskjör rýrna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá Hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum til ársins 2012. Hagdeildin spáir ríflega 10% samdrætti í landsframleiðslu í ár og áframhaldandi samdrætti á fyrri hluta næsta árs, en að botninum verði náð á öðrum ársfjórðungi það ár og efnahagslífið byrji að rétta úr kútnum í framhaldinu.

Spá 9-10% atvinnuleysi í ár

Í hagspánni kemur fram að útlit er fyrir að atvinnuleysi verði 9-10% næstu misserin þótt heldur dragi úr þegar líða tekur á spátímabilið.

„Háir vextir, veik króna, takmarkað aðgengi að lánsfé og minnkandi eftirspurn gerir rekstrarskilyrði fyrirtækja erfið. Þungar vaxtagreiðslur, vaxandi útgjöld vegna atvinnuleysis og samdráttur í tekjum valda verulegum hallarekstri hjá hinu opinbera á næstu árum.

Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera. Verðbólga hjaðnar og verður komin í 4% í árslok en nær lágmarki á öðrum ársfjórðungi 2010 og verður þá um 0,3%.

Gengi krónunnar verður stöðugra en helst áfram veikt þótt það styrkist nokkuð þegar líður á spátímann. Seðlabankinn heldur áfram að lækka stýrivexti þegar skýr merki sjást um að tekist hafi að endurvekja traust á íslenskt efnahagslíf. Hann mun þá jafnframt létta á gjaldeyrishöftum í áföngum," að því er segir í hagspá ASÍ.

Mikil óvissa um fjármögnun álversframkvæmda

Í spánni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík fari á fullt skrið á þessu ári og að hafist verði handa við endurnýjun á álverinu í Straumsvík ásamt framkvæmdum við tengd raforkuver. Áætlað er að afkastageta fyrsta áfanga álversins í Helguvík verði 90 þúsund tonn og endurnýjunarinnar í Straumsvík 45 þúsund tonn og að framleiðsla hefjist í báðum verksmiðjunum á síðari hluta árs 2011. Mikil óvissa ríkir um fjármögnun þessara verkefna en framkvæmdir eru þegar hafnar við álverið í Helguvík en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um endurnýjun í Straumsvík, að því er segir í hagspánni.

„Fjárfestingar atvinnuveganna drógust saman um rúm 27% í fyrra. Það sem af er þessu ári hefur atvinnuvegafjárfesting dregist snarpt saman og gerum við ráð fyrir samdrætti um 56% á milli ár. Hámark stóriðjuframkvæmda í Helguvík og Straumsvík er áætlað á næsta ári og þá gerum við ráð fyrir ríflega 80% vexti í fjárfestingum atvinnuveganna og áframhaldandi 10% vexti árið 2010. Þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur árið 2012 gerum við ráð fyrir fimmtungs samdrætti í fjárfestingum atvinnuveganna þrátt fyrir mikla aukningu í almennum fjárfestingum atvinnulífsins öðrum en stóriðjufjárfestingum."


Spáin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert