Ný eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF lenti á Reykjavíkurflugvelli um þrjúleytið í dag. Flugvélin er af gerðinni Dash-8 Q300 og eru flugvélar sömu tegundar notaðar hjá strandgæslum, eftirlits- og björgunarsveitum víða um heim.
Þann 5. mars 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands smíði á nýrri eftirlits- og björgunarflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands í stað TF-SYN, Fokker vélar Landhelgisgæslunnar sem þjónað hefur Landhelgisgæslunni dyggilega í rúm 32 ár en er komin til ára sinna bæði hvað varðar tæknibúnað og getu, að því er segir í tilkynningu.
TF-SIF var formlega afhent Landhelgisgæslunni hjá Field Aviation í Kanada síðastliðinn föstudag. Sendiherra Íslands í Kanada, frú Sigríður Anna Þórðardóttir klippti á borðann ásamt Georg Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar sem veitti vélinni formlega viðtöku.
Smíðasamningur var undirritaður í maí 2007 og var samningsverð 32,2 milljónir Bandaríkjadala. Hafa allar áætlanir um bæði tíma og verð staðist að öllu leyti, er reyndar svo að flugvélin er nokkuð á undan áætlun. Við undirbúning útboðs, hönnun og smíði vélarinnar sem og þjálfun áhafna hefur Landhelgisgæslan notið ómældrar aðstoðar sænsku strandgæslunnar sem hefur á að skipa þremur samskonar vélum, samkvæmt tilkynningu.
Flugvélin er smíðuð hjá Bombardier í Kanada en ísetning tæknibúnaðar fór fram hjá Field Aviation í Kanada.