Allt vaðandi í makríl fyrir vestan land

Makríll
Makríll mbl.is

Loðnutorfur hafa fundist fyrir norðan land og allt er vaðandi í makríl vestan við landið, að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda, á vef fyrirtækisins.

,,Við höfum haft af því spurnir að færeyska skipið Norðborg, sem er við veiðar á norsk-íslensku síldinni, hafi að undanförnu leitað að síld í veiðanlegu magni fyrir norðan land, innan íslensku landhelginnar. Ekki vantar að síld er að finna á mjög stóru svæði en hún hefur verið mjög dreifð og í lítt veiðanlegu magni. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að skipið hefur rekist á nokkrar ágætar loðnutorfur og benda sýni úr aflanum til þess að um sé að ræða tveggja ára loðnu eða sama árgang og væntanlega mun koma til með að bera upp veiðina á næstu vertíð,” segir Vilhjálmur á vef HB Granda, en hann segir einnig að fréttir af makrílgengd fyrir vestan landið veki mönnum bjartsýni.
 
,,Við höfum það eftir Birgi Stefánssyni á Hval 9, að áhöfn skipsins hafi orðið vör við mikið af makríl vestur af landinu, allt frá fjöru og langt út á haf. Veiðar í flottroll eru bannaðar á þessu svæði og því ekki um það að ræða að makríllinn komi í togveiðarfæri en við höfum spurnir af því að trillukarlar hafi verið að fá makríl á handfæri við Hellnanes,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Á vef HB Granda er haft eftir Guðmundi Óskarssyni, fiskifræðingi hjá Hafrannsóknastofnun, að hann hafi ekki heyrt um loðnugengdina fyrir norðan. Hins vegar hefðu nokkrar ábendingar um vaðandi fisk út af Breiðafirði og Faxaflóa borist til Hafrannsóknastofnunar að undanförnu.

,,Við erum að fara í síldarleiðangur á Bjarna Sæmundssyni RE á morgun, m.a. til að kanna ástand íslensku sumargotssíldarinnar og hugsanlega útbreiðslu sýkingarinnar sem vart varð við á síðustu vertíð. Fyrstu viðbrögðin við ábendingum um vaðandi fisktorfur hér vestan við landið voru þau að þar væri síld á ferðinni en þar gæti allt eins verið um makríl að ræða. Þetta verður skoðað á næstunni en næsti loðnuleiðangur er ekki fyrirhugaður fyrr en í nóvember nk.,” segir Guðmundur Óskarsson á vef HB Granda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert