Fangi á Litla Hrauni var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og til að sæta upptöku á fíkniefnum og greiðslu sakarkostnaðar upp á tæpar 114 þúsund krónur en hann var ákærður fyrir vörslu fíkniefna en við leit í klefa fangans að Litla-Hrauni þann með 3. október sl. fundu fangaverðir 0,02 g af hassi. Í janúar sl. voru tekin af honum 10 g af amfetamíni ásamt tveimur lyfjabelgjum með óþekktu efni, en framangreindu hafði verið smyglað inn í fangelsið í hægra afturbretti bifreiðar og fanginn nálgast það þegar bifreiðinni var lagt við dyr fangelsisins.
Hann var jafnframt dæmdur fyrir tilraun til fjársvika með því að setja dánartilkynningu samfanga í Morgunblaðið og óska eftir framlögum á bankareikning sinn. Í desembermánuði 2008 í fangelsinu Litla-Hrauni, útbjó hann dánartilkynningu þar sem andlát samfanga hans var tilkynnt. Þann 10. desember 2008 birtist umræddrar tilkynning í Morgunblaðinu þar sem gefið var upp reikningsnúmer í eigu fangans í því skyni að afla samskota og þannig svíkja út fé, en reikningi hans var lokað áður en nokkur hafði látið blekkjast, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.