Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þeirri kjaraskerðingu sem lífeyrisþegar urðu fyrir við gildistöku laga um ríkisfjármál um mánaðamótin.
Í ályktun aðalstjórnar ÖBÍ, sem samþykkt var í gær, segir að horfið sé mörg ár aftur í tímann hvað varðar réttindi lífeyrisþega. Einnig séu innleiddar nýjar skerðingar með því að láta lífeyrissjóðstekjur skerða bæði grunnlífeyri og aldurstengda uppbót.
Í ályktun ÖBÍ segir að grunnlífeyrir almannatrygginga hafi m.a. verið hugsaður til að mæta þeim kostnaði sem fylgir fötlun og því óháður tekjum, líkt og hvers konar hjálpartæki.
„Skerðing lífeyristekna með aðeins nokkurra daga fyrirvara er siðlaus. Hér er um tekjur tugþúsunda heimila að ræða, þar sem hverri krónu er ráðstafað fyrirfram. ÖBÍ fordæmir að heimili öryrkja og aldraðra skuli ekki talin með öðrum heimilum sem standa á vörð um. Öryrkjabandalag Íslands er þess fullmeðvitað að samfélagið stendur frammi fyrir meiri vanda en nokkru sinni fyrr í sögu lýðveldisins. Ólíðandi er þó þegar reynt er að ná sáttum í samfélaginu að fulltrúar 44 þúsund landsmanna, öryrkja og eldri borgara, skuli ekki hafðir með í slíkri sáttagjörð,“ segir í ályktun aðalstjórnar ÖBÍ.