Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir ríkisstjórnina hafa, eins og flestir, vonað að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti sína í morgun. Bankinn ákvað að vextirnir stæðu í stað og yrðu áfram 12%. „Það ber ýmislegt til en ég held að aðalatriðið sé að horfurnar framundan séu í þessa átt,“ segir Steingrímur og bendir á að gengi krónunnar og verðbólgan leiki stórt hlutverk.
„Það þýðir ekkert annað en að bíta á jaxlinn og halda áfram,“ segir Steingrímur ennfremur. Segir hann ákvörðunina ekki skipta sköpum fyrir áætlanir ríkisstjórnarinnar. Hún muni halda áfram glímunni við ríkisfjármálin og reyna að ná traustum tökum á málunum til að skapa skilyrði fyrir áframhaldandi vaxtalækkunarferli.
„Það er engin uppgjöf á dagskrá,“ segir Steingrímur sem nú vinnur að framsöguræðu um Icesave-málin.